Erlent

Eþíópíumenn komnir inn í Mogadishu

Ástandið í Sómalíu er ótryggt.
Ástandið í Sómalíu er ótryggt. MYND/AP

Stjórnarher Sómalíu, með fulltingi eþíópískra hersveita, gekk fylktu liði inn í Mogadishu, höfuðborg landsins í dag, nokkrum klukkustundum eftir að íslamskir uppreisnarmenn yfirgáfu hana. Upplausn virðist ríkja í borginni og þúsundir landsmanna eru á vergangi vegna átakanna. 140 er saknað eftir að báti flóttamanna hvolfdi í dag.

Stjórnleysi og stríðsástand er veruleiki sem Sómalar þekkja allt of vel. Blóðug borgarastyrjöld geisaði í landinu á tíunda áratugnum og síðan þá hefur landið verið nánast stjórnlaust. Undanfarina mánuði hefur íslamska dómsstólaráðið svonefnda náð yfirráðum yfir hluta landsins, þar á meðal höfuðborginni Mogadishu. Í krafti sjaríalaga hefur leiðtogum þess tekist að halda uppi lögum og reglu víðast hvar. Á sama tíma hafa svo íslamistarnir sótt mjög að hinni veikburða ríkisstjórn landsins. Um helgina snerist taflið hins vegar við þegar nágrannarnir í Eþíópíu sendu herlið á vettvang til hjálpar ríkisstjórninni. Í gær yfirgáfu íslamistarnir borgina Jowhar og nú virðist baráttan um Mogadishu einnig töpuð. Sharif Ahmed, einn leiðtoga íslamistanna, lýsti því yfir í morgun að þeir hefðu ákveðið að yfirgefa borgina til að koma í veg fyrir að Eþíópíumenn láti sprengjum yfir sómalska borgara. Síðdegis dró svo til tíðinda þegar tilkynnt var að hersveitirnar væru komnar inn í höfuðborgina.

Fregnir herma að herliðinu hafi verið fagnað en aðrar heimildir greina frá því að gripdeildir og glundroði einkenni nú Mogadishu öðru fremur. Er talið að hinir gömlu stríðsherrar séu komnir á kreik til að tryggja yfirráð sín þar á ný. Að sögn flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna eru nú þúsundir manna á vergangi vegna átakanna og hagur þeirra væri afar bágborinn. Síðdegis hvolfdi báti flóttamanna skammt undan ströndum Jemen. 17 lík hafa fundist en 140 er enn saknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×