Verið er að leggja lokahönd á kaup Hjálms ehf. á meirihluta í útgáfufélaginu Birtíngi. Samkvæmt heimildum Markaðarins verður skrifað undir samning um söluna síðar í dag eða strax 2. janúar. Nokkur uppstokkun verður á útgáfustarfseminni við sameiningu fyrirtækjanna en til stendur að leggja niður tímaritin Mannlíf, Hér og nú og Veggfóður.
Talsmaður Hjálms, neitar því hins vegar í samtali við Vísi, að ákveðið hafi verið að leggja niður Mannlíf.
Hjálmur, sem er í eigu Baugs, er aðaleigandi Fögrudyra sem nýverið keypti af 365 tímaritin Veggfóður og Hér og nú. Birtíngur gefur út fjölda tímarita, Mannlíf, Nýtt líf, Hús og híbýli, Séð og heyrt, Gestgjafann, Bleikt og blátt og Vikuna.
Í fréttatilkynningu frá Baugi kemur fram að eigendur hins sameinaða félags eru Hjálmur ehf., sem er að öllu leyti í eigu Baugs Group hf. (60%), LL eignir ehf., sem er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar hrl. (28%), Elín Guðrún Ragnarsdóttir (10%), Reynir Traustason, Mikael Torfason og Jón Trausti Reynisson.
Stjórnarformaður Birtings ehf. er Sigurður G. Guðjónsson, en með honum í stjórn eru Sverrir Arngrímsson og Egill Þorvarðarson. Framkvæmdastjóri er Elín Guðrún Ragnarsdóttir.
Mikael Torfason og Reynir Traustason verða áfram aðalritstjórar útgáfunnar, hvor yfir sínu sviði.
Elín Ragnarsdóttir verður framkvæmdastjóri tímaritahlutans Fögrudyra og Hjálmar Blöndal verður framkvæmdastjóri Dagblaðsins-Vísis útgáfufélags ehf. sem eftirleiðis gefur út DV.
Nokkur uppstokkun verður á útgáfustarfseminni við sameiningu fyrirtækjanna. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur verið tekin ákvörðun um að leggja niður tímaritin Mannlíf, Hér og nú og Veggfóður, en talsmaður Hjálms neitar því, sem fyrr segir.
DV mun heyra undir Dagblaðið-Vísir útgáfufélag ehf, sem 365 á 40 prósenta hlut í á móti Hjálmi ehf, sem fer með 49 prósenta hlut. Sigurjón M. Egilsson og Janus Sigurjónsson eru aðrir eigendur að félaginu.
Aðaleigandi Fögrudyra er Hjálmur ehf., sem tilkynnti í gær að það myndi jafnframt kaupa af 365 miðlum hlut í tímaritinu í Bístró, sem verður þá nokkurn veginn að jöfnu í eigu 365, Hjálms og starfsmanna Bístró.