Erlent

Kastró á batavegi

Myndin sýnir Kastró ávarpa stúdenta þann 26. júlí síðastliðinn, aðeins nokkrum dögum áður en hann veiktist.
Myndin sýnir Kastró ávarpa stúdenta þann 26. júlí síðastliðinn, aðeins nokkrum dögum áður en hann veiktist. MYND/AP

Kúbverska ríkisstjórnin greindi frá því í dag að Fídel Kastró, hinn veiki leiðtogi þeirra, hefði hringt í sendiherra Kína á Kúbu í gær til þess að ræða samskipti ríkjanna tveggja. Kastró bað meðal annars fyrir nýárskveðjur til Hu Jintao, forseta Kína.

Kúbverjar hafa mikið reynt að sýna fram á að heilsa Kastrós sé betri en umheimurinn telur og að hann muni snúa aftur í sviðsljós embættis síns og taka völdin á ný. Bandaríkjamenn hafa leitt líkur að því að Kastró sé dauðvona vegna krabbameins en spænskur læknir sem Kúbverjar sendu eftir sagði að Kastró væri hvorki dauðvona né með krabbamein.

Læknirinn sagði að Kastró væri á batavegi og gæti brátt hafið störf á ný. Fréttir af Kastró eru hins vegar fátíðar og var ekkert fjallað um heimsókn hins spænska læknis á Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×