Innlent

Frumvarp um Nýsköpunarmiðstöð breytt

Ríkisstjórnin hefur samþykkt breytt frumvarp um stofnun Nýsköpunarmiðstöðvar. Eldra frumvarp olli miklum deilum á síðasta vorþingi. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir búið að sníða vankanta af eldra frumvarpi. Eftir er þó að koma í ljós hvort tekist hafi að sætta ólík sjónarmið.

Nýsköpunarmiðstöð verður til við sameiningu Iðntæknistofnunar, Byggðastofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins.Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra og þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði fram frumvarp um stofnun miðstöðvarinnar í vor og olli það töluverðum deilum. Ekki var eining um málið á stjórnarheimilinu og margir þingmenn Sjálfstæðisflokks andvígir því eins og það var lagt fram. Töldu sumir rétt að leggja Byggðastofnun niður en aðrir sögðu hana gegna mikilvægu hlutverki.

Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að í nýju frumvarpi hafi verið tekið mið af þeim atriðum sem samkomulag hafi orðið um í iðnaðarnefnd síðastliðið vor. Einnig hafi verið reynt að svara gagnrýni þingmanna á landsbyggðinni.

Helsta breytingin sé stofnun nýs Byggðasjóðs sem heyri undir iðnaðarráðherra en hafi eigin framkvæmdastjóra. Hlutverk sjóðsins verði svipað hlutverki Byggðastofnunar en hann eigi að efla samkeppnishæfni atvinnulífs og bregðast við sérstökum áföllum á þeim landsvæðum sem heimildir sjóðsins takmarkist við.

Jón segir að eftir sem áður sé gert ráð fyrir að meginhlutverk Byggðasjóðs verði að veita ábyrgðir á lán. Það verði að bregðast við því að staðan á íslenskum bankamarkaði sé gjörbreytt og ekki nema eðlilegt að taka tillit til þess. Ekki sé þó gert ráð fyrir að sjóðurinn veiti lán en hann hafi heimild til að hafa forgöngu um samninga við lánastofnanir og geti lagt fram ábyrgðir til að um fjárhagslega aðstoð geti verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×