Viðskipti innlent

Forstjóri FL Group furðar sig á stjórn LV

Hannes Smárason
Hannes Smárason

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, furðar sig á vinnubrögðum stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) sem hefur opinberlega auglýst fimm prósenta hlut sinn til sölu. Ég fæ ekki með nokkru móti séð hvernig þetta þjónar hagsmunum hluthafa og hagsmunum sjóðsfélaga að senda tölvupóst út um allan bæ og bjóða hlutinn með þeim hætti. Að hans mati er aðferðin, sem beitt er við söluna, til þess fallin að setja þrýsting á aðra hluthafa og vekja upp deilur meðal þeirra.

Hannes leggur á það áherslu að FL Group, sem heldur utan um 26 prósenta hlut í Straumi, skipti sér ekkert af þeim átökum sem áttu sér stað innan stjórnar Straums og vill hann einhenda sér í það efla fjárfestingarbankann í góðri samvinnu við aðra hluthafa.

Þessi aðferðafræði sem sjóðurinn beitir lýsir móðursýki. Hún þjónar engum tilgangi.

Hlutabréf í Straumi-Burðarási lækkuðu í gær um 2,78 prósent og enduðu í 17,5 krónum á hlut. Meðal seljenda var Samherji, sem seldi fyrir 1,8 milljarða króna, en ekki hefur fengist upp gefið hver keypti hlutinn.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um sölu á hlut sjóðsins í Straumi og mun stórn taka ákvörðun um framhaldið á grundvelli hagsmuna sjóðsfélaga eins og ávallt. Sjóðurinn fer með 4,3 prósenta hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×