Demókratar vonast til að geta þrýst á um að byrjað verði að kallað heim bandaríska hermenn frá í Írak eftir fjóra til sex mánuði og að herinn verði kallaður heim í áföngum. Þetta kom fram í máli demókratans Carls Levins, sem búist er við að verði nýr formaður hermálanefndar öldungadeildarinnar, í viðtali á sjónvarpsstöðinni ABC í dag.
Eins og kunnugt er fóru demókratar með sigur af hólmi í kosningum til bæði fulltrúadeildar og öldungadeildar Bandaríkjaþings í síðustu viku sem þýðir að þeir geta haft meiri áhrif á stefnu stjórnvalda, t.d. í gegnum fjárveitingar.
Levin sagði á ABC í dag að fyrsta verkefnið væri að snúa af þeirri braut sem Bandaríkjastjórn fetaði í Írak í dag og hann vonaði að menn úr röðum repúblikana myndu aðstoða demókrata við þrýsta á George Bush Bandaríkjaforseta að tilkynna írökskum stjórnvöldum að Bandaríkjamenn yrðu ekki í Írak um óákveðinn tíma. Bush hefur lýst því yfir að Bandaríkjaher hverfi ekki frá Írak fyrr en íröksk yfirvöld séu reiðubúin að taka við stjórn öryggismála í landinu.
„Við þurfum að hefja brottflutning hermanna í áföngum eftir fjóra til sex mánuði," sagði Levin. Undir orð hans tók annar öldungadeildarþingmaður, Joseph Biden, en búist er við að hann verði formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar.