Innlent

Efnahagsbrotadeildin skilar greinargerð fyrir 5. desember

Jón H.B. Snorrason gengur út úr dómsal ásamt Hjördísi Sigurjónsdóttur, fréttakonu Stöðvar 2.
Jón H.B. Snorrason gengur út úr dómsal ásamt Hjördísi Sigurjónsdóttur, fréttakonu Stöðvar 2. MYND/Vilhelm

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra fékk í gær frest til þriðjudagsins 5. desember til þess að skila skriflegri greinargerð vegna kæru fimm einstaklinga er tengjast Baugsmálinu.

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, Jóhannes Jónsson, Kristín Jóhannesdóttir, Tryggvi Jónsson og Stefán Hilmarsson kærðu meint vanhæfi starfsmanna efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra til héraðsdóms fyrir liðna helgi.

Þau ætla ekki að svara spurningum er tengjast rannsókn efnahagsbrotadeildar á ætluðum skattalagabrotum þar til niðurstaða fæst í kærumálinu.

Kærendur krefjast þess að rannsóknin verði dæmd ólögmæt og til vara að starfsmenn efnahagsbrotadeildar verði dæmdir vanhæfir til þess að fara með rannsókn málsins. Í kröfunni er meðal annars vitnað til orða sem yfirmenn hjá embætti Ríkislögreglustjóra hafa látið falla í fjölmiðlum síðan rannsókn Baugsmálsins hófst.

Jón H.B. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, var ekki tilbúinn til þess að veita vilyrði fyrir því að ekki yrðu gefnar út ákærur í skattamálinu áður en niðurstaða fengist í kærumálinu. Eftir stuttan fund lögmanna kærenda og Jóns H.B. náðist samkomulag um frest. Munnlegur málflutningur vegna kærunnar fer fram 6. desember en dómari í málinu er Eggert Óskarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×