Innlent

Öryggiseftirlit til sýslumanns

Stjórnvöld eru að færa ríkisstofnunum verkefni á silfurfati að sögn Guðmundar Arasonar, framkvæmdastjóra Securitas, sem hefur, ásamt Öryggismiðstöðinni, annast öryggisleit á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við Flugmálastjórn.

Utanríkisráðuneytið hefur ákveðið að Flugmálastjórn geri þjónustusamning við sýslumanns-embættið á Keflavíkurflugvelli fyrir árið 2007 um framkvæmd þess hluta öryggisleitar sem Secur-itas og Öryggismiðstöðin hafa sinnt.

Guðmundur segist hafa upplýsingar um að þeirra þjónusta sé ódýrari en þjónusta sýslumanns-embættisins og þetta gangi gegn útvistunarstefnu stjórnvalda sem snýst um að þar sem einkageirinn geti framkvæmt hluti hagkvæmar en hið opinbera sé forstöðumönnum skylt að bjóða verkefnið út. „Flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli hefur tekið þessa stefnu upp og beitt í sínum ákvörðunum en er núna rekinn öfugur til baka. Þetta er slæmt merki til annarra ríkisstofnana,“ segir Guðmundur.

Gert er ráð fyrir 160 milljónum króna í samninginn við sýslumanns-embættið að sögn aðstoðarmanns utanríkisráðherra. Á meðan verður gerð úttekt á mögulegum útfærslum á rekstri vopna- og öryggisleitar og ákvörðun um framtíðarútfærslu tekin í kjölfarið. Ekki náðist í utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×