Innlent

Það er fleira dýrt en maturinn

Guðni Ágústsson Landbúnaðarráðherra segir Ísland vera dýrt land og að leita beri leiða til að lækka verð á mörgum sviðum.
Guðni Ágústsson Landbúnaðarráðherra segir Ísland vera dýrt land og að leita beri leiða til að lækka verð á mörgum sviðum.

„Það liggur fyrir að á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er unnið að því að semja um tolla og innanlandsstuðning og þar liggur landbúnaðurinn undir,“ sagði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra eftir fund ríkisstjórnarinnar í gærmorgun þar sem rætt var um skýrslu formanns matvælaverðsnefndar.

Guðni segir að aðgerðir hér heima verði að taka mið af því sem gerist í alþjóðlegum samningum en farið verði yfir skýrslu formannsins og leiða leitað sem komið geti til góða fyrir íslenska neytendur. Í því sambandi verði horft til matarskattsins, tolla, tollígilda og vörugjaldanna. Hins vegar býst hann ekki við að skattur á gos, sælgæti og aðra óhollustu verði lækkaður.

En Guðni horfir ekki aðeins til matvörunnar þegar verðlag er annars vegar. „Matarverð er hlutfallslega ekkert hærra hér en verð á öðrum vörum sem snúa að hag heimilanna. Við sjáum það á lyfjaverði, fataverði og mörgum nauðsynjum. Ísland er dýrt land og það ber að leita leiða til að ná niðurstöðu um einhverja lækkun á mörgum sviðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×