Innlent

Ekki víst að sjóðurinn veikist

Magnús Stefánsson Félagsmálaráðherra vill ekkert segja um eigin hugmyndir um framtíð Íbúðalánasjóðs.
Magnús Stefánsson Félagsmálaráðherra vill ekkert segja um eigin hugmyndir um framtíð Íbúðalánasjóðs. MYND/Hörður

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra segir ekki sjálfgefið að lækkun matsfyrirtækisins Standard & Poor‘s á lánshæfismati Íbúðalánasjóðs veiki sjóðinn. „Það þarf ekki að vera til lengri tíma,“ sagði Magnús í gær en tók fram að hann ætti eftir að fara yfir málið með sérfræðingum. Hann benti á að breyting á mati S&P hefði svifið yfir vötnum í nokkurn tíma en Moodys, sem er sambærilegt fyrirtæki, gæfi sjóðnum áfram bestu einkunn.

Magnús segir ómögulegt að segja til um hvort breytt lánshæfis­­mat hafi áhrif á vexti Íbúðalánasjóðs, slíkt ráðist í útboðum.

Starfshópur sem fjallar um breytt hlutverk Íbúðalánasjóðs er að störfum en lítt hefur miðað í vinnu hans síðustu vikur vegna sumarleyfa. Magnús segist reikna með að tillögur starfshópsins um nýtt hlutverk sjóðsins liggi fyrir með haustinu og vill ekkert segja um eigin hugmyndir um framtíð Íbúðalánasjóðs að svo stöddu. „Ég vil fyrst sjá hvaða tillögur hópurinn hefur og mínar hugmyndir koma fram þegar þar að kemur,“ sagði Magnús.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×