Innlent

Í-listinn fengi hreinan meirihluta

Í-listinn, sameiginlegt framboð Samfylkingarinnar, Vinstri - grænna, Frjálslyndra og óháðra á Ísafirði, næði hreinum meirihluta í bæjarstjórn ef kosið yrði nú. Þetta kemur í ljós í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir NFS. Átta ára valdatíð sjálfstæðismanna og framsóknarmanna virðist á enda samkvæmt þessu.

Félagsvísindastofnun gerði könnunina dagana 26. til 28. apríl á Ísafirði og studdist við 600 manna úrtak. Svarhlutfall var 68 prósent. Samkvæmt könnuninni fengi Í-listi, sameiginlegt framboð Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Frjálslyndra og óháðra 52 prósent atkvæða, en samtals fengu flokkarnir um 43 prósent atkvæða í síðustu kosningum. Þeir bæta því við sig tæpum tíu prósentum.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn tapa hins vegar fylgi frá síðustu kosningum, Sjálfstæðisflokkurinn um fjórum prósentum og Framsókn þremur og hálfu. Yrðu þetta niðurstöðu kosninganna missa flokkarnir tveir sinn manninn hvor í bæjarstjórn og þar með er meirihlutinn fallinn. Í-listinn fengi hins vegar fimm mennn og hreinan meirihluta en aðeins Samfylkingin og Frjálslyndir eiga nú bæjarfulltrúa, Samfylkingin tvo en Frjálslyndir einn.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna, segir könnunina ekki koma sér á óvart. Hann bendir á að kosningabaráttan sé ekki að fullu hafin á Ísafirði og að sjálfstæðismenn geti séð sóknarfæri í þessum tölum.

Sigurður Pétursson, oddviti Í-listans, segir niðurstöðurnar í takt við það sem forsvarsmenn Í-listans hafi fundið fyrir í samtölum við bæjarbúa. Hann hyggst þó ekki verða bæjarstjóri ef þetta verða niðurstöður kosninga í lok mánaðarins heldur ætlar Í-listinn að auglýsa eftir bæjarstjóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×