Innlent

Hópur sem vill á önnur mið

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur Segir niðurstöður skoðanakönnunarinnar endurspegla tvær blokkir á sviði stjórnmálanna.
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur Segir niðurstöður skoðanakönnunarinnar endurspegla tvær blokkir á sviði stjórnmálanna.

Greinilegt er að hópur kjósenda Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vill ekki halda áfram með ríkisstjórnarsamstarfið. Þetta les Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur úr skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birtist í blaðinu í dag.

„Það vekur strax athygli að 32,2 prósent vilja stjórnarsamstarf ríkisstjórnarflokkanna sem er langt frá því fylgi sem flokkarnir fengu samanlagt í þessari skoðanakönnun,“ segir Baldur sem bætir við að greinilegt sé að þó nokkur hópur úr öðrum hvorum flokknum, eða báðum, vilji leita á önnur mið í stjórnarsamstarfi.

Baldur segir einnig að veki athygli að ekki fleiri en 14,8 prósent skuli nefna stjórnarandstöðuna sem besta kostinn í ríkisstjórnarsamstarfi, „Stjórnarandstaðan þarf að gera mun betur til þess að fella ríkisstjórnina í kosningunum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel að vígi,“ segir Baldur og vísar í niðurstöður skoðanakönnunarinnar í gær og það að 53,7 prósent þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni vildu að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi að ríkisstjórnarsamastarfi.

48,2 prósent þeirra sem tóku afstöðu vilja að Samfylkingin taki þátt í ríkisstjórnarsamstarfi. „Þetta endurspeglar þessar tvær blokkir, annars vegar hægri blokkina og vinstri blokkina, sem eru tvær nokkuð jafnar blokkir sem takast á,“ segir Baldur Þórhallsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×