Innlent

Stefnir í að flug lamist um áramót

Allt stefnir í að flug lamist hér á landi og á milli landa um áramót. Flugstoðir, sem taka við flugstjórninni um áramót, hafa sett flugumferðarstjórum skilyrði um að undirrita starfsmannasamninga fyrir klukkan þrjú í dag, ella sé félagið ekki bundið af neinum samningum við þá. Flugumferðarstjórar ætla ekki að að undirrita samninginn.

Flugstoðir sendu bréf til flugumferðarstjóranna í fyrradag með ýmsum skýringum varðandi lífeyrsismál og fleira í nýjum kjarasamningi. Síðar í bréfinu er gefinn kostur á að undirrita fyrir klukkan þrjú í dag og síðan ségir orðrétt: „Berist ekki svar frá þér fyrir þann tíma verður litið svo á að þú hafir ekki áhuga á að koma til starfa hjá félaginu og það hafi þar með engar skuldbindingar gagnvart þér."

Loftur Jóhanssson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, segir í viðtali við fréttastofuna að þetta bréf hafi verið mikil vonbrigði. Engar haldbærar skýringar eða tryggingar hafi komið fram í því og það hafi í raun gert illt verra.

Fyrir utan að allt flug hér á landi og til og frá landinu muni að óbreyttu lamast um áramót verði gríðarleg röskun á öllu farþegaflugi á milli Evrópu og Ameríku þar sem íslenska flutstjórnarsvæðið sé eitt hið stærsta í heimi. Reynslan af 16 klukkustunda verkfalli flugumferðarstjóra árið 2001 hafi glöggt sýnt það.

Samkvæmt upplýsingum þeirra flugumferðarstjóra sem frétastofan hefur rætt við í morgun ætlar líklega enginn af þeim 60 flugumferðarstjórum, sem starfa við flugumferðina sjálfa, að undirrita samninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×