Viðskipti innlent

Ógilding samruna staðfest

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá því í sumar um að ógilda samruna lyfsölu- og lyfjaskömmtunarfyrirtækjanna DAC og Lyfjavers. Samruninn var sagður myndi raska samkeppni og skaða hagsmuni almennings.

DAC er systurfélag lyfsölukeðjunnar Lyfja og heilsu. „Samruninn hefði leitt til þess að tvær lyfsölukeðjur, Lyf og heilsa annars vegar og Lyfja hins vegar, hefðu rúmlega áttatíu prósent allrar lyfjasmásölu í landinu," segir Samkeppniseftirlitið og taldi keðjurnar tvær deila sameiginlegri markaðsráðandi stöðu á smásölumarkaði lyfja.

Mat Samkeppniseftirlitsins var að sameiginleg markaðsráðandi staða keðjanna gerði þeim kleift að samhæfa hegðun sína á markaði án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda. „Lyfjaver hefur verið öflugur keppinautur stóru lyfjakeðjanna og lagt áherslu á að bjóða lyf á lágu verði. Brotthvarf Lyfjavers af markaðnum hefði haft í för með sér umtalsverða röskun á samkeppni," segir Samkeppniseftirlitið og telur úrskurð áfrýjunarnefndar hafa talsvert fordæmisgildi og geti auðveldað vinnu gegn skaðlegri fákeppni á ýmsum mörkuðum hér.

Lyf og heilsa segist harma niðurstöðu áfrýjunarnefndar. „Okkar mat er að með niðurstöðunni hafi íslenskir neytendur misst af tækifæri til hagræðingar þeim til hagsbóta," segir Guðni B. Guðnason, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu og kveður fyrirtækið halda áfram að leita leiða til hagræðingar og bættrar þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×