Innlent

Veikir stöðu Íslands í málinu

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra Yfirlýsingar hennar um hvalveiðar eru sagðar veikja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra Yfirlýsingar hennar um hvalveiðar eru sagðar veikja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

Fyrirvari sem Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra setti við hvalveiðar kom stjórnarandstæðingum í opna skjöldu og var ræddur á Alþingi í gær.

Jónína sagðist í Fréttablaðinu í gær óttast um trúverðugleika og ímynd í umhverfislegu tilliti. Trúverðugleikinn gæti veikst.

Sigurjón Þórðarson Frjálslynda flokknum, sem styður hvalveiðarnar, sagði orð Jónínu hafa veikt stöðu Íslands í málinu. Hann gagnrýndi einnig afstöðu hinna stjórnarandstöðuflokkanna og kvað stöðuna sterkari ef þeir væru samstíga fylgjendum málins.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði margt óupplýst varðandi hvalveiðarnar og spurði hvort ekki væri samstaða um þær í ríkisstjórn. Mörður Árnason Samfylkingunni velti afstöðu Jónínu einnig fyrir sér.

Einar K. Guðfinnsson sjávar­útvegsráðherra sagði málið einfalt, ákvörðun um hvalveiðar hefði verið kynnt í ríkisstjórn og stjórnin stæði að baki henni.

Þá sagði hann eðlilegar skýringar á að Hvalur hf. hefði ekki fengið leyfi til vinnslu kjöts í hvalstöðinni í Hvalfirði; ýmis praktísk mál gætu komið upp þegar veiðar væru hafnar á nýjan leik eftir tuttugu ára hlé. „Hvalur er að ljúka við að uppfylla skilyrði sem sett eru og það er ekkert óeðlilegt við það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×