Innlent

Sjálfvirk mótmæli

Stefán Máni rithöfundur
Stefán Máni rithöfundur

Maður er drulluleiður á þessum yfirlætislegu afskiptum alltaf, segir Stefán Máni rithöfundur um mótmælin sem nú dynja á okkur vegna nýhafinna hvalveiða, m.a. frá Bretum og Bandaríkjamönnum. Þessi mótmæli eru sjálfvirk eins og Velvakandi og þreytandi pólitík sem snúast held ég ekkert um hvali. Við eigum ekki að fara á taugum þótt einhverjir túristar stappi niður fæti.

Það hlýtur að eiga að snúast um hvort veiðarnar borgi sig eða ekki, ekki um nokkra Þjóðverja með tárvot augu. Sjálfur hef ég enga afgerandi skoðun á þessum veiðum. Mér finnst skipin ógeðslega flott og illileg að sjá og öll stemningin í kringum veiðarnar er rómantísk á nostalgískan hátt. Við ættum að gera meira út á það, breyta þessum skipum bara í Disneyheim með hoppandi leikurum með lepp fyrir auganu og tréfót um borð. Svo mætti skjóta gúmmíhvali eða það mætti nota skipin til hvalaskoðunar og skjóta mat til hvalanna. Þannig væri hægt að taka Gísla Martein á þetta, og allir yrðu ánægðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×