Innlent

Hunsar upplýsingar um hval

Ben Bradshaw Sjávarútvegsráðherra Breta er stóryrtur í garð Íslendinga. Hann segir ákvörðun um atvinnuhvalveiðar óskiljanlega.
Ben Bradshaw Sjávarútvegsráðherra Breta er stóryrtur í garð Íslendinga. Hann segir ákvörðun um atvinnuhvalveiðar óskiljanlega. MYND/Stefán

Haukur Ólafsson, sendifulltrúi í íslenska sendiráðinu í Bretlandi, segir Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Breta, hafa allar nauðsynlegar upplýsingar um stofnstærð langreyðar og hrefnu en hann kjósi hins vegar að nýta þær ekki í málflutningi sínum um atvinnuhvalveiðar Íslendinga.

Bradshaw sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, á miðvikudag að ákvörðun Íslendinga væri óskiljanleg og heimsbyggðinni réttilega misboðið. Hann lætur einnig að því liggja að vísindaveiðar á hrefnu sé fyrirsláttur til að geta veitt hval.

„Menn nota þau rök sem henta þeim og hann kýs að nýta ekki þær upplýsingar að langreyðarstofninn við Ísland telji um 25 þúsund dýr og Atlantshafssjávarspendýraráðið og vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins hafa staðfest það,“ segir Haukur.

Bradshaw hefur kallað sendiherra Íslands í Bretlandi, Sverri Hauk Gunnlaugsson, á sinn fund í næstu viku. Þar ætlar hann að greina Sverri frá afstöðu breskra stjórnvalda til atvinnuhvalveiða Íslendinga.

Haukur segir það skoðun sendiráðsins að hvalveiðarnar hafi ekki vakið mikla athygli í Bretlandi og fjölmiðlaumfjöllun sé lítil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×