Innlent

Löng bið og ónóg úrræði

hrefna Haraldsdóttir Flest mál sem berast Sjónarhóli eru mál sem varða bið í kerfinu og ónóga stoðþjónustu við fötluð börn.
hrefna Haraldsdóttir Flest mál sem berast Sjónarhóli eru mál sem varða bið í kerfinu og ónóga stoðþjónustu við fötluð börn.

Foreldrar fatlaðra barna sem leita til Sjónarhóls kvarta yfir að fjármagn, mannskap og úrræði vanti til að sinna börnum þeirra sem skyldi. Reikna má með að á milli 1500-1800 foreldar leiti til Sjónarhóls árlega, en þar eiga foreldrar barna sem eiga við langvarandi veikindi og fötlun að stríða rétt á ráðgjafaviðtölum.

Hrefna Haraldsdóttir, foreldraráðgjafi hjá Sjónarhóli, segir að flest mál sem berist Sjónarhóli séu skólamál og mál sem varði bið í kerfinu og ónóga stoðþjónustu við fötluð börn. „Sem dæmi má nefna að það er skortur á skammtímavistunum fyrir börn með þroskahömlun og á stuðningsfjölskyldum. Þeim sem sækja um búsetu fyrir fötluð börn sín finnst erfitt að fá ekki að vita hvenær börnin komist að og oft er um margra ára bið að ræða.“

Hrefna segir foreldra sem leita til Sjónarhóls oft reiða og við það að gefast upp. „Foreldrar barna með ofvirkniröskun kvarta gjarnan yfir að börn þeirra fái ekki nægan stuðning í skólanum og er þá skuldinni oft skellt á skort á fjármagni eða mannskap. Það er mjög erfitt fyrir foreldra að gera plön fram í tímann ef þeir vita ekki hvenær von er á búsetuúrræðum fyrir börn þeirra. Þá kvarta foreldrar yfir óljósum svörum úr kerfinu og segja að óvissa ríki um málefni þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×