Innlent

Tollarnir haldast háir áfram

kjötborðið í nóatúni Lítið magn af kjúklingabringum hefur verið flutt til landsins. Ef fyrirhuguð verðlækkun á að nást verður að lækka tolla á þeim vöruflokkum sem eru í samkeppni við innlendar kjötvörur, að mati Samtaka atvinnulífsins.
kjötborðið í nóatúni Lítið magn af kjúklingabringum hefur verið flutt til landsins. Ef fyrirhuguð verðlækkun á að nást verður að lækka tolla á þeim vöruflokkum sem eru í samkeppni við innlendar kjötvörur, að mati Samtaka atvinnulífsins.

Ganga verður út frá því að fjörutíu prósenta lækkun verði á tollum í þeim vöruflokkum sem eru í samkeppni við innlendar kjötvörur, til dæmis nautakjöt, kjúklingar og svínakjöt, ef fyrirhuguð verðlækkun upp á allt að sextán prósent á að nást. Þetta er mat Samtaka atvinnulífsins.

Innanlandsframleiðsla kjöts var rétt rúm 24 þúsund tonn og heildarsala tæp 23 þúsund tonn. Neysla lambakjöts var 7.300 tonn, svínakjöts 5.300 tonn, nautakjöts 3.600 tonn og hrossakjöts fimm hundruð tonn í fyrra. Heimildir til innflutnings á lægri tollum eru lítið nýttar.

Tæp tvö hundruð tonn af kjöti voru flutt inn, eða innan við eitt prósent af heildarneyslunni. Mest var flutt inn af nauta- og hreindýrakjöti, eða um helmingur innflutningsins. Tæp þrjátíu tonn af kjúklingum voru flutt inn og tólf tonn af svínakjöti. Það er vel innan við eitt prósent af neyslunni. Hæsti tollurinn var á nautahakk, eða 266 prósent, en kjúklingar og kalkúnar voru með tvö hundruð prósent.

Verðlækkunin „getur ekki orðið nema af völdum lækkunar innlendra kjötvara því markaðshlutdeild innfluttra kjötvara verður óhjákvæmilega afar lítil áfram þrátt fyrir tollalækkunina þar sem tollarnir verða eftir sem áður afar háir,“ segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×