Innlent

Tekur slaginn við ráðherra

Kristinn og Magnús Kristinn átti í deilum við þingflokk Framsóknar fyrir tveimur árum. Öldurnar voru lægðar á kjördæmaþingi 7. nóvember árið 2004 og við það tilefni tókust Kristinn og Magnús í hendur.
Kristinn og Magnús Kristinn átti í deilum við þingflokk Framsóknar fyrir tveimur árum. Öldurnar voru lægðar á kjördæmaþingi 7. nóvember árið 2004 og við það tilefni tókust Kristinn og Magnús í hendur.

„Ég tel mig eiga bærilega möguleika,“ segir Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður sem sækist eftir 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir kosningar til Alþingis næsta vor.

Gera má ráð fyrir því að Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra sem var efstur á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 2003 sækist áfram eftir því sæti. Kristinn sem þá var í öðru sæti vill þannig fá forystusæti ráðherrans.

„Það verður auðvitað bara að setja sér markmið, stefna að þeim og sjá svo til hvernig til tekst. Það er fátt annað að gera,“ segir Kristinn og bendir um leið á að í prófkjörinu fyrir síðustu alþingiskosningar hafi verið notað annað fyrirkomulag en nú verði beitt:

„Þær reglur voru óvenjulegar – og ekki víða við hafðar – að sá fékk ekki 1. sætið sem fékk flest atkvæði nema hann fengi hreinan meirihluta. Þegar kosið var fékk ég flest atkvæði í 1. sæti en ekki hreinan meirihluta svo það var kosið aftur og þá fékk Magnús 1. sætið. Núna er ekki krafa um hreinan meirihluta og sá vinnur sem fær flest atkvæði,“ útskýrir Kristinn.

Prófkjör Framsóknarflokksins í Norðvestur­kjördæmi fer fram 3. til 17. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×