Innlent

Íslenska friðargæslan kostar 600 milljónir

Íslenska friðargæslan kostar sex hundruð milljónir króna á ári. Hér eftir mun hún snúa sér að borgaralegum verkefnum, en utanríkisráðherra vill þó ekki afvopna Íslensku friðargæsluna.

Eins og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra kynnti í gær á að mýkja ásýnd íslensku friðargæslunnar, jeppagengin verða innan tíðar sett í önnur verkefni og konur hvattar til að taka þátt í friðargæslunni. Valgerður sagði í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag að hér eftir myndi friðargæsla alfarið sinna borgaralegum verkefnum, þar sem hin herlausa þjóð gerði meira gagn en í hernaðarlegum.

Í þessari mjúku ásýnd felst meðal annars námskeið í fjallahéruðum Afganistan fyrir yfirsetukonur og ljósmæður og eru tvær íslenskar ljósmæður þegar farnar utan í þá vinnu. Þá á að bæta við tveimur friðargæsluliðum í Serbíu í samvinnu við UNIFEM sem vinna að mannréttinda- og jafnréttismálum. EInnig er ráðgert að auka samstarf við UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna.

Fjölga átti íslenskum friðargæsluliðum upp í fimmtíu fyrir lok þessa árs en það eru aðeins tuttugu og sex Íslendingar við friðargæslu í heiminum. Hingað til segir Valgerður hefur skort áhugaverð verkefni til að laða Íslendinga í friðargæslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×