Innlent

Flugfélag Íslands hefur flug til Eyja á mánudag

MYND/Valgarður

Flugfélag Íslands hefur áætlunarflug til Vestmannaeyja næsta mánudag eftir að samkomulag tókst við Vegagerðina um tíu mánaða samning. Hann verður undirritaður í dag að viðstöddum samgönguráðherra og í honum er gert ráð fyrir þrettán flugferðum milli Reykjavíkur og Eyja í viku.

Með þessu hefjast flugsamgöngur aftur milli Reykjavíkur og Eyja eftir að Landsflug hætti að fljúga á leiðinni þann 25. september. Flugið er ríkisstyrkt og segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands, að styrkurinn nemi um 70 milljónum króna á ársgrundvelli. Samningurinn er hins vegar aðeins til tíu mánaða því Vegagerðinni hefur verið falið að bjóða út flugið með styrkjum og er áætlað að útboðinu verði lokið innan þessara tíu mánaða. Hægt verður að bóka flug til og frá Eyjum frá og með föstudeginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×