Innlent

Vinnur að nýtingu jarðvarma í Slóvakíu

Orkufyrirtækið Enex, sem er í meirihlutaeigu Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, vinnur að rannsóknum á möguleikum á nýtingu jarðvarma í þremur sveitarfélögum í Austur-Slóvakíu.

Enex hefur stofnað félagið Vranov með íslenskum og erlendum félögum sem vinnur að því að meta líkur á arðsemi framkvæmda sem leitt gætu til nýtingu jarðvarma fyrir sveitarfélögin.

Lárus Elíasson, framkvæmdastjóri Enex, segir vonir standa til þess að vinnan skili jákvæðum niðurstöðum. „Tilgangurinn með stofnun félagsins, sem vinnur að arðsemismati á hugsanlegum framkvæmdum, er fyrst og fremst sá að tryggja réttarstöðu okkar, ef ákveðið verður að fara út í þessar framkvæmdir. Það munu liggja fyrir niðurstöður í nóvember, sem við metum síðan með tilliti til þess hvort ákveðið verður að fara út í framkvæmdirnar.“

Meðal eigenda hluta í Enex eru auk Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveita Suðurnesja, Jarðboranir og Glitnir.

Unnið er að rannsóknunum í samstarfi við tækniháskólann í Kosice, en margslungnar tæknilegar athuganir þurfa að fara fram áður en ákvörðun verður tekin um framkvæmdirnar.

Íslenskir sérfræðingar hafa unnið að athugunum á rannsóknarsvæðinu í austurhluta Slóvakíu. Reiknað er með því að holurnar, sem boraðar verða í tengslum við rannsóknirnar, verði meira en þrjú þúsund metra djúpar. Kostnaður við rannsóknirnar liggur ekki fyrir en miðað við áætlanir gæti hann orðið tuttugu milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×