Viðskipti innlent

Hallinn dregst hratt saman

Þorsteinn Þorgeirs­son Skrifstofu­stjóri efnahags­skrifstofu kynnti nýja þjóðhagsspá í gær.
Þorsteinn Þorgeirs­son Skrifstofu­stjóri efnahags­skrifstofu kynnti nýja þjóðhagsspá í gær.

Viðskiptahallinn mun fara í 18,7 prósent í ár og dragast svo hratt saman á næsta ári. Þá mun hann mælast 11 prósent af landsframleiðslu en fjögur prósent árið 2008. Lækkun á gengi krónunnar á þessu ári mun hjálpa til við þessa þróun. Þetta er meðal þess sem kom fram í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins.

Merki eru um að tekið sé að draga úr umsvifum á fasteignamarkaði og í vexti einkaneyslu. Því er gert ráð fyrir að hægi á hagvexti og hann verði um 4,2 prósent í lok árs. Á næsta ári er spáð samdrætti í fjárfestingu en minni samdrætti í einkaneyslu. Hagvöxtur á næsta ári mun mælast eitt prósent en 2,6 prósent árið 2008.

Gert er ráð fyrir að verðbólgan nú í ár verði 7,3 prósent í lok árs. Mun hún svo svo síga hratt á næsta ári og mælast 4,5 prósent og svo 2,5 prósent árið 2008.

Í langtímaspá til ársins 2012 er gert ráð fyrir að hagkerfið leiti jafnvægis og hagvöxtur í lok tímabilsins nemi um þremur prósentum, verðbólga rúmum tveimur prósentum og viðskiptahalli um tveimur prósentum af landsframleiðslu. Í spánni er ekki gert ráð fyrir áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum heldur einungis tekið tillit til þess sem búið er að taka ákvörðun um. Aðrir óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða gengi krónunnar og aðstæður í alþjóðlegu efnahagslífi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×