Innlent

Síðasta skip sumarsins farið

Star princess. Skemmtiferðaskipið fór á laugardag eftir um níu klukkutíma langa heimsókn. Flestir farþeganna áttu pantaðar skoðunarferðir í landi.
Star princess. Skemmtiferðaskipið fór á laugardag eftir um níu klukkutíma langa heimsókn. Flestir farþeganna áttu pantaðar skoðunarferðir í landi.

Faxaflóahafnir áætla að um 55.000 erlendir ferðamenn hafi komið með skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur í sumar. Það er sami fjöldi og í fyrra, þegar einn af hverjum sjö erlendum ferðamönnum kom til landsins með skemmtiferðaskipi sem lagðist að Reykjavíkurhöfn.

Ferðamönnum sem koma til landsins á þennan máta hefur fjölgað á undanförnum árum. Árið 2001 komu um 27.500 manns til landsins með skemmtiferðaskipum, en um 45.000 árið 2004. Í fréttatilkynningu frá Faxaflóahöfnum segir að með tilkomu Skarfabakka, nýs hafnarbakka í Sundahöfn sem tekinn var í notkun í sumar, hafi aðstaða Reykjavíkurhafnar til móttöku skemmtiferðaskipa stórbatnað og skapi Skarfabakki möguleika á enn frekari sókn inn á þennan markað á komandi árum.

Star Princess frá Bermúda var síðasta skemmtiferðaskip sumarsins, en með því eru skip sumarsins orðin 74. Star Princess fór frá Reykjavík á laugardagskvöld eftir að hafa staldrað við í um níu klukkutíma, en um 1.800 af 2.000 farþegum skipsins áttu pantaðar skoðunarferðir hér á landi á þeim tíma. Níu af skemmtiferðaskipum sumarsins stöldruðu við yfir nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×