Innlent

Ekki hægt að hafa lögheimili í frístundabyggð

MYND/E.J.

Óheimilt verður að skrá lögheimili í frístundabyggð ef nýtt frumvarp félagsmálaráðherra nær fram að ganga.

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu í apríl á síðasta ári að sveitarfélaginu Bláskóbyggð hefði verið óheimilt að synja fjölskyldu um að skrá lögheimili sitt í sumarhúsi.

Félagsmálaráðherra skipaði í júní á síðasta ári starfshóp til að meta áhrif dóms Hæstaréttar á áhrif búsetu í frístundabyggð á þjónustuhlutverk sveitarfélaga.

Ekki hefur orðið mikil aukning á því að einstaklingar hafi fært lögheimili sín í frístundabyggðir en sveitarfélögin hafa staðið gegn þeirri þróun, þar sem þau telja að þau þurfi að stórauka þjónustu við sumarhúsabyggðir ef einstaklingar skrá lögheimili sín þar. Kostnaður við snjómokstur í byggðunum myndi aukast og einnig gæti fallið til kostnaður eins og við skólaakstur.

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn nýtt frumvarp vegna málsins. Þar er lagt til að bætt verði við 1. grein lögheimilslaga ákvæði um að dvöl í húsnæði sem byggt er á svæði sem skipulagt er sem frístundabyggð, geti ekki talist sem ígildi fastrar búsetu og þess vegna sé skráning lögheimilis í slíku húsnæði óheimil.

Með nýju lögunum verður ekki hægt að skrá lögheimili sitt í frístundabyggð nema að sveitarstjórn í viðkomandi sveitarfélagi hafi samþykkt breytingu á skipulagi svæðisins. Lögin útiloka hins vegar ekki skráningu lögheimilis í sumarhús sem standa utan skipulagðrar frístundabyggðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×