Sport

Mamma mía, við erum lélegir

Jurgen Klinsmann fær það óþvegið í þýskum fjölmiðlum í dag eftir stórtap fyrir Ítölum í gær
Jurgen Klinsmann fær það óþvegið í þýskum fjölmiðlum í dag eftir stórtap fyrir Ítölum í gær AFP

Jurgen Klinsmann, landsliðsþjálfari Þjóðverja, fær það óþvegið í þýsku pressunni í dag eftir að Þjóðverjar voru teknir í bakaríið á Ítalíu í æfingaleik þjóðanna í gær 4-1. Þýska blaðið Bild birti stóra mynd af Klinsmann undir fyrirsögninni "Mamma, mía, við erum lélegir."

Allir leikmenn þýska liðsins fengu falleinkun fyrir leik sinn í gær, eða einkunn sem stendur fyrir "vann ekki fyrir kaupinu sínu." Tapið í gær var versta tap Þjóðverja í vináttuleik síðan árið 1939 og hefur liðið nú ekki unnið toppþjóð í vináttuleik síðan árið 2000.

"Þetta var sannkölluð kennslustund, en nú verðum við bara að taka gagnrýninni," sagði Klinsmann, en Michael Ballack lofar að þýska liðið muni sýna á sér allt aðrar hliðar í næsta leik sem er æfingaleikur gegn Bandaríkjamönnum í Dortmund eftir þrjár vikur. "Guði sé lof að það er stutt í næsta leik hjá okkur. Þið munið sjá allt annað lið þá, ég lofa því," sagði Ballack.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×