Það má sannarlega búast við skemmtilegum körfubolta í beinni útsendingu á NBA TV í kvöld þegar Chicago Bulls og Cleveland Cavaliers leiða saman hesta sína. Leikmenn Cleveland mæta væntanlega eins og öskrandi ljón til leiks í kvöld, því liðið hefur tapað fimm leikjum í röð. Leikurinn er á besta tíma og hefst klukkan tólf á miðnætti.
Cleveland tapaði fyrir Sacramento í gærkvöldi, en Chicago hefur ekki spilað síðan í fyrrinótt þegar leikstjórnandinn Kirk Hinrich átti stórleik með 30 stigum, 13 fráköstum og 9 stoðsendingum í góðum sigri liðsins á Minnesota. Helsti styrkur Chicago er klárlega öflug liðsheild og varnarleikur - á meðan helsta vopn Cleveland er undrabarnið LeBron James sem er orðinn einn allra fjölhæfasti og besti leikmaður deildarinnar.
Aðeins tveir leikir eru á dagskránni í NBA í nótt, en auk viðureignar Chicago og Cleveland eigast við risarnir í Vesturdeildinni, San Antonio og Dallas.