Viðskipti innlent

Styrk staða áréttuð

Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnasons, bankastjórar Landsbankans.
Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnasons, bankastjórar Landsbankans.

Landsbanki Íslands sendi í gær upplýsingar um stöðu bankans til Kauphallar Íslands, en það var sagt gert í ljósi nýlegrar umræðu í erlendum fjölmiðlum og greininga á íslenskum efnahagsmálum og bankakerfinu hér.

Bankinn áréttaði að lausafjárstaða hans væri sterk, en lausafjáreignir væru alls 4,7 milljarðar evra. Langtímalán sem til endurgreiðslu væru á þessu ári og næsta næmu hins vegar 3,1 milljarði evra. "Þar að auki hefur Landsbankinn aðgang að veltulánum og varalántökulínum, peningamarkaðslánum og ýmsum öðrum fjármögnunarleiðum," segir í erindi bankans.

Þá kemur fram að grunnafkoma bankans hafi stöðugt batnað, sérstaklega síðan árið 2003, og að í hlutafjáreign bankans sé gott jafnvægi.

Bankinn bendir jafnframt á að matsfyrirtækið Standard & Poor's hafi undir lok síðasta mánaðar staðfest lánshæfismat sitt á öllum íslensku bönkunum og núna á fimmtudaginn staðfest lánshæfismat íslenska ríkisins.

"Leiðréttingar á gengi krónunnar og hlutabréfa var vænst og í því felast engin vandamál fyrir heildarefnahag heimila eða fjármálastofnana. Þessar leiðréttingar létta á áhyggjum sem erlendir greiningaraðilar hafa haft varðandi eignaverð og gengi krónunnar," segir bankinn og áréttar að hér sé fyrirséður hagvöxtur á næstu árum langt yfir meðaltali ríkja OECD.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×