Enski boltinn

Jafntefli við Man. Utd

Brynjar Björn á hér í baráttunni við Louis Saha, sóknarmann Manchester United, en þeir komu báðir inn sem varamenn í gær.
Brynjar Björn á hér í baráttunni við Louis Saha, sóknarmann Manchester United, en þeir komu báðir inn sem varamenn í gær.

Nýliðar Reading eru í sjöunda sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir sex leiki en í gær gerði liðið 1-1 jafntefli á heimavelli sínum gegn Manchester United. Ívar Ingimarsson var að sjálfsögðu á sínum stað í vörninni hjá Reading en Brynjar Björn Gunnarsson kom inn á sem varamaður þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

„Ég var farinn að halda að þetta væri okkar dagur þegar Cristiano Ronaldo átti þetta frábæra einstaklingsframtak og jafnaði,“ sagði Steve Coppell, knattspyrnustjóri Reading. Í upphafi seinni hálfleiks komst Reading yfir með marki Kevin Doyle úr vítaspyrnu sem dæmd var á Gary Neville, fyrirliða Manchester United. Á 73. mínútu jafnaði Ronaldo þegar hann lék á varnarmann og skoraði með föstu skoti í hornið.

„Á heildina litið er ég sáttur við þetta stig sem við vorum að vinna okkur inn. Mínir menn börðust vel og eiga hrós skilið,“ sagði Coppell. Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri United, var ekki eins hress en gaf sér tíma til að hrósa mót­herjunum. „Leikmenn Reading börðust fyrir öllum boltum og voru sívinnandi. Samt sem áður áttum við að gera betur,“ sagði Ferguson.

„Þetta féll ekki með okkur í dag, markvörður þeirra varði frábærlega í þrígang. Það er erfitt að spila á móti liði sem spilar eins varnarsinnað og Reading gerði í þessum leik.“

United er nú í þriðja sæti deildar­innar en næsti deildarleikur liðsins er á heimavelli gegn Newcastle eftir viku og á miðvikudag leikur það gegn Benfica í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×