Innlent

Mun leggja landbúnað í rúst

Í fjósinu. Þingflokksformaður Samfylkingar segir tímabært að neytendur fái eitthvað af þeim hagræðingarmöguleikum sem bændur hafi fengið undanfarin ár.
Í fjósinu. Þingflokksformaður Samfylkingar segir tímabært að neytendur fái eitthvað af þeim hagræðingarmöguleikum sem bændur hafi fengið undanfarin ár.

„Svona aðgerðir á svona stuttum tíma munu leggja stóran hluta landbúnaðarins, og úrvinnslugreina hans, í rúst,“ segir Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, um tillögur Samfylkingar til lækkunar á matvælaverði.

Meðal helstu breytinga í tillögunum eru niðurfelling innflutningstolla á matvælum í áföngum. 1. júlí verði tollar lækkaðir um helming og ári síðar verði þeir afnumdir með öllu. Fyrirkomulagi á stuðningi við bændur verði einnig breytt þannig að teknar verði upp tímabundnar beinar greiðslur og umhverfisstyrkir. Slíkt fyrirkomulag verði útfært í samvinnu við bændur.

„Það er ekkert nema blekking og hræsni að halda að það sé hægt að bæta þetta upp með einhverjum mótaðgerðum. Ef þetta gerist á þessum hraða mun það höggva afskaplega stór skörð í landbúnaðinn og alla úrvinnslu búvara hér á landi,“ segir Sigurgeir.

Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir hag landbúnaðarins hafa vænkast verulega á undanförnum árum, „eins og landbúnaðarráðherra gumar jafnan af. Við teljum að neytendur þurfi að fá eitthvað af þeim hagræðingarmöguleikum sem bændur hafa fengið undanfarin ár,“ segir Össur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×