Innlent

Sveitarfélögin íhuga aðild sína að Strætó

„Ég hef heyrt að sveitarstjórnarmenn séu að skoða að sveitarfélögin sjái sjálf um sinn innanbæjarakstur en reki stofnleiðirnar í sameiningu,“ segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði. „Þá eru innanbæjarmálin okkar og við tökum þá sjálf ákvörðun um hvert þjónustustigið og gjaldið eigi að vera.“

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingar, segir sparnaðaraðgerðir Strætó undanfarið tilkomnar vegna þess að nágrannasveitarfélögin hafi neitað að leiðrétta fjárframlög sín til fyrirtækisins, sem hafi hækkað vegna kjarasamninga. „Þegar launin hækkuðu á leikskólum borgarinnar á sínum tíma bættum við þeim það upp svo þjónustan myndi ekki skerðast,“ segir Dagur.

Í yfirlýsingu frá Ásgeiri Eiríkssyni, framkvæmdastjóra Strætó bs., kemur fram að öll aðildarsveitarfélög hafi staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun.

Birni Inga Hrafnssyni, borgarfulltrúa og oddvita Framsóknarflokksins, finnst ámælisvert að fyrrverandi fulltrúi borgarinnar í stjórn Strætó, Björk Vilhelmsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi R-listans, hafi ekki gert borginni kunnugt um taprekstur Strætó bs. um leið og ljóst var í hvað stefndi.

„Strætó tapaði rúmri milljón á dag og það hefur legið fyrir frá því í apríl. Strætó hefur því tapað rúmum áttatíu milljónum króna síðan. Því urðum við að taka óvinsælar ákvarðanir til að bregðast við taprekstrinum,“ segir Björn Ingi og vísar til sparnaðar­aðgerða Strætó bs. Björn Ingi fagnar nýlegum ummælum Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra um að ríkið komi með einhverjum hætti að rekstri Strætó.

„Ég fagna því að ríkisvaldið sé tilbúið að vinna með sveitarstjórnum að því að efla almenningssamgöngur,“ sagði Björn Ingi.

Hvorki Björn Ingi né Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, útilokuðu að borgin kæmi með frekara fjármagn inn í reksturinn. „Eftir stjórnsýsluúttektina kemur í ljós hvort sveitarfélögin hafi staðið við sitt og um leið hvort Reykjavíkurborg þurfi að borga meira,“ sagði Gísli Marteinn Baldursson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×