Innlent

Brúðkaup við landamæri Líbanons og Ísraels

Mitt í öllum átökunum við landamæri Líbanon og Ísraels reynir fólk að halda áfram að lifa eðlilegu lífi og ísraelskt par gifti sig við landamærin í gær.

Athöfnin var haldin í borginni Kiryat Shemona, þar sem sprengjum frá Hishbollah hefur rignt niður undanfarna daga. Brúðhjónin höfðu löngu skipulagt brúðkaupið og fyrir tíu dögum hefur þau væntanlega ekki grunað að það yrði haldið á stríðssvæði. Eins og staðan er þarna þótti ekki á annað hættandi en að halda brúðkaupið í sprengjuheldu skýli neðanjarðar.

Gestalistinn var eitthvað minni en áætlað var og eins var staðsetningin ákveðin á síðustu stundu, en að öðru leyti bar brúðkaupið þess ekki merki að þar færi fólk sem ætti í stríði við aðra þjóð. Þarna gerði fólk sér glaðan dag á þessum merku tímamótum og reyndi að gleyma um stund þeim hörmulegu atburðum sem eiga sér stað við landamærin þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×