Innlent

Mikill skaði á sumum trjátegundum

MYND/GVA

Rysjótt tíð í vor hafði slæm áhrif á trjávöxt í landinu. Þetta segir framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands. Á Suðurlandi og suðvesturhorninu varð mikill skaði á sumum trjátegundum.

Uppgræðsla landsins hefur mörg undanfarin ár verið metnaðarmál hjá okkur Íslendingum. Sumir höfðu uppi stór orð á sínum tíma um ástand gróðurs og ræktunar Íslands og talað var um að landið væri hreinlega að fjúka burt. Mikill skurkur var hins vegar gerður í þessum málum, ekki síst eftir að Vigdís Finnbogadóttir varð forseti og tengja ófáir nafn hennar við átak í uppgræðslu landsins.

En köld tíð á þessu ári, og meðal annars á nýliðnu vori, hefur hins vegar haft slæm áhrif á skógræktina í ár, að sögn Brynjólfs Jónssonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands. Þetta eigi ekki síst við á suður- og suðvesturhluta landsins þar sem sum trén eru illa kalin.

Ætlunin var að gróðursetja um sex milljónum plantna í ár en Brynjólfur er svartsýnn á það takist, úr því sem komið er. Vegna hinnar rysjóttu veðráttu í vor sé ekki víst að gróðrarstöðvar geti afhent þær plöntur sem búið var að kaupa. Þetta komi þó betur í ljós í lok sumars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×