Innlent

Gert fyrir erlenda sjófarendur

Coast guard Varðskipið Týr er merkt upp á ensku í stað íslensku.
Coast guard Varðskipið Týr er merkt upp á ensku í stað íslensku. MYND/Anton

Ara Páli Kristinssyni, forstöðumanni Íslenskrar málstöðvar, þykir miður að á varðskipinu Tý standi Coast Guard í stað íslenskrar áletrunar.

Skipið er nýkomið úr slipp í Póllandi en þegar það hélt utan stóð á því Landhelgisgæslan.

Jóhann Baldursson, upplýs­ingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir skipið merkt upp á ensku til að auðvelda útlendingum að þekkja það. „Íslendingar þekkja varðskipin en þetta er gert fyrir útlendinga sem fara um lögsöguna.“

Ari Páll Kristinsson segir þetta miður þar sem varðskip séu á vissan hátt framlína íslenska ríkisins. „Því er svolítið sérstakt að þeim sem sigla inn í íslensku landhelgina skuli vera heilsað á tungumáli sem ekki er opinbert í þessu ríki.“ Ari Páll veltir einnig fyrir sér hversu vel þetta gagnist erlendum sjófarendum. „Það er spurning hversu vel Spánverjar eða Lettar, svo dæmi séu tekin, skilja enskuna; hvort þeir skilji hana eitthvað betur en íslenskuna.“

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokks, hefur sent dómsmálaráðherra fyrirspurn um málið. Hann spyr hverju enska merkingin sæti og hvort lögreglubílar og lögreglustöðvar verði framvegis merkt á ensku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×