Innlent

Vissi ekki af rannsókn stjórnvalda

Svavar Gestsson, sendiherra Íslands í Danmörku, segist aldrei hafa heyrt af athugunum íslenskra stjórnvalda á tengslum íslenskra borgara við austur-þýsku leyniþjónustuna STASI. Svavar Gestsson var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar á árunum 1989 til 1991 og var með Steingrími og Jóni Baldvin í ríkisstjórn, þegar athugað var um tengsl STASI við Íslendinga.

Svavar sagðist aldrei hafa heyrt af þessum athugunum á tengslum Íslendinga við STASI fyrr. Ég hef ekki heyrt af rannsóknum íslenskra stjórnvalda, sem miðuðu að því að upplýsa um það, hvort ég, eða einhver annar Íslendingur, hafði einhver tengsl við STASI eða ekki. Það er alveg ljóst, að Steingrímur og Jón Baldvin verða að gera ítarlega grein fyrir þessu máli.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær, staðfestu Steingrímur og Jón Baldvin að athuganir á tengslum Íslendinga við STASI hefðu farið fram en við þá athugun, sem Róbert Trausti Árnason þáverandi varafastafulltrúi hjá NATO í Brussel vann, kom ekkert óeðlilegt í ljós. Jón Baldvin og Steingrímur sögðust ekki hafa óskað eftir því sérstaklega að tengsl Svavars við STASI yrðu skoðuð.

Ákvarðanir um athugun á tengslum Íslendinga við STASI voru teknar á leiðtogafundi aðildarríkja NATO í Brussel í desember 1989, um fimm vikum eftir að Berlínarmúrinn féll í nóvember 1989.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×