Innlent

Söltun og mokstur aukinn í borginni

jón halldór jónasson Þeir sem aka fjórhjóladrifnum bílum eru ólíklegri til að vera á nagladekkjum en þeir sem aka bílum með drifi á einum öxli.
jón halldór jónasson Þeir sem aka fjórhjóladrifnum bílum eru ólíklegri til að vera á nagladekkjum en þeir sem aka bílum með drifi á einum öxli.

Dregið hefur úr notkun nagladekkja á höfuðborgarsvæðinu á undanförunum árum og eru nú 52 prósent farartækja með nagladekk. Til samanburðar má geta þess að 64 prósent voru með nagladekk árið 2001. Þetta kemur fram í viðhorfskönnun á notkun vetrardekkja sem gerð var í maí 2006.

Jón Halldór Jónasson, upp­lýsingastjóri framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, segir helstu breytingarnar þær að þeir sem eru á fjórhjóladrifnum bílum séu ólíklegri til að vera á nagladekkjum en þeir sem aka bílum með drifi á einum öxli. Fjórhjóladrifnum bílum hafi fjölgað og þar með dragi úr notkun á nagladekkjum. „Þannig voru 62 prósent bíla með drifi á einum öxli á nagladekkjum á móti 36 prósentum bíla með fjórhjóladrifi."

Jón Halldór segir gleðilegt að nagladekkjum sé að fækka og greinilegt að fólk telji sig öruggt án þeirra. „Það er mikill hagur í því að sleppa nöglunum því þeir eru stór þáttur í svifryksmengun borgarinnar og eyðingu slitlags. Á síðasta ári spændust 10 þúsund tonn upp af slitlagi í Reykjavík vegna nagladekkja og nemur kostnaður við lagfæringu þess 150 milljónum."

Í könnuninni kemur í ljós að ríflega 42 prósent þeirra sem sögðust myndu kaupa nagladekk telja að önnur dekk kæmu til greina ef aukið yrði við mokstur og söltun. Jón Halldór segir að nú sé í bígerð að auka söltun og mokstur á vegum borgarinnar frá í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×