Innlent

Mýrin fékk flest verðlaun

Afhending Edduverðlaunanna fór fram við glæsilega athöfn á Hótel Nordica í gærkvöldi. Mikil stemning var í salnum og vöktu kynnarnir Pétur Jóhann Sigfússon og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir mikla kátínu meðal viðstaddra.

Edduverðlaunin sem besta mynd ársins hlaut Mýrin og fékk Baltasar Kormákur leikstjóri hennar jafnframt Edduna fyrir leikstjórn. Baltasar minntist sérstaklega á framlag eldri kynslóðar leikara til myndarinnar. Ingvar E. Sigurðsson var valinn leikari ársins fyrir aðalhlutverk sitt í Mýrinni og Atli Rafn Sigurðsson fyrir aukahlutverk í sömu mynd. Loks fékk Mugison Edduna fyrir hljóð og tónlist í Mýrinni.

Ómar Ragnarsson var valinn vinsælasti sjónvarpsmaður ársins í netkosningu og risu viðstaddir úr sætum og fögnuðu honum gríðarlega. „Ég þakka þeim af auðmýkt sem hafa stutt mig á þessu óvenjulega ári sem ég hef lifað núna,“ sagði Ómar.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti Magnúsi Scheving heiðursverðlaun ÍKSA. Magnús hvatti til frekari framlaga stjórnvalda til framleiðslu leikins efnis fyrir sjónvarp. „Með nægu fjármagni geta Íslendingar verið á heimsmælikvarða,“ sagði hann í þakkarræðunni.

Kompás var valinn sjónvarpsþáttur ársins og Anna og skap-sveiflurnar stuttmynd ársins. Kvikmyndin Börn fékk Edduna fyrir handrit ársins og gamanþátturinn Stelpurnar fékk Edduna fyrir leikið sjónvarpsefni. Jón Ólafs var valinn besti skemmtiþátturinn.

Óttar Guðnason hlaut verðlaun fyrir kvikmyndatöku í Little trip to Heaven og Skuggabörn var valin heimildarmynd ársins. Loks hlaut stuttmyndin Presturinn, djákninn og brúðguminn hvatningarverðlaun Eddunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×