Innlent

Fannfergi olli erfiðleikum

Mikil snjókoma var á höfuðborgarsvæðinu aðfaranótt sunnudags og í gær, og átti fjöldi fólks í vandræðum með að komast á milli staða. Björgunarsveitarmenn sinntu um tvö hundruð verkefnum vegna fannfergisins. Flest útköllin voru vegna þess að fólk hafði fest bíla sína í snjónum og var nokkuð um yfirgefna bíla í vegköntum þar sem ökumenn höfðu gefist upp á akstrinum.

Starfsmenn Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar unnu að því að ryðja götur borgarinnar allan gærdag og gekk vel að sögn þeirra. Snjóruðningi var haldið áfram í morgun og verða þær götur hreinsaðar í dag sem ekki náðist að ryðja í gær.

Samkvæmt Kristínu Hermannsdóttur, veðurfræðingi hjá Veðurstofu Íslands, léttir til á suðvesturhorninu í dag, en mögulega verður éljagangur norðanlands. Hún segir norðaustanátt verða á landinu í dag og að vindhraði verði víða um 5 til 13 metrar á sekúndu og vægt frost, um 1 til 10 stig.

Að sögn Kristínar verður vægt frost á höfuðborgarsvæðinu, líklega um eitt stig. Kuldagaddurinn sem gengið hefur yfir síðustu daga búinn og veðrið verði almennt séð alveg ágætt á landinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×