Innlent

Skaðar pólitíska framtíð

Einar Mar Þórðarson Sagan sýnir að stjórnmálamenn eiga oft erfitt uppdráttar eftir að hafa breytt um áherslur í stjórnmálum.
Einar Mar Þórðarson Sagan sýnir að stjórnmálamenn eiga oft erfitt uppdráttar eftir að hafa breytt um áherslur í stjórnmálum. MYND/Vilhelm

„Þingmaður er ekki bundinn af neinu nema eigin samvisku og því ekki hægt að segja þetta svik við kjósendur. Hann er annar þingmaðurinn sem gerir þetta á þessu kjörtímabili því Gunnar Örlygsson sagði sig úr flokki Frjálslyndra fyrir nokkru.

En vissulega erum við með þetta kerfi að menn fara á þing af sérstökum listum og því er þetta kannski gagnrýnisvert. Valdimar Leó settist á þing sem varaþingmaður og kjósendur voru ekki endilega að kjósa hann,“ segir Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur um þá ákvörðun Valdimars Leós Friðrikssonar að ganga úr Samfylkingunni og ætla að vinna sem óháður þingmaður til vors.

Aðspurður hvort ákvörðun Valdimars sé ekki pólitískt sjálfsmorð og það hafi sagan sannað í tilfelli annarra stjórnmálamanna, svarar Einar Mar: „Já, það má kannski segja það. Þeim sem hafa gengið úr flokkum hefur nú ekki gengið mjög vel. Nefna má að Kristján Pálsson var settur út í kuldann og Gunnar Örlygsson líka í síðasta prófkjöri. Sjálfstæðismenn hafa hafnað þeim. Svo er það Kristinn H. Gunnarsson. Honum var tekið opnum örmum af framsóknarmönnum en hann spilaði sig út í horn og hefur núna verið settur út af sakramentinu. Það má því segja að þetta hafi ekki góð áhrif á pólitíska framtíð manna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×