Innlent

Frábært færi og fjöldi gesta í brekkunum

Þessir krakkar voru meðal þeirra sem nýttu sér opnun skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli um helgina. Borgarbörnin eru ekki jafn heppin, en eitthvað er í að skíðasvæðin í Bláfjöllum og Skálafelli verði  opnuð.
Þessir krakkar voru meðal þeirra sem nýttu sér opnun skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli um helgina. Borgarbörnin eru ekki jafn heppin, en eitthvað er í að skíðasvæðin í Bláfjöllum og Skálafelli verði opnuð. MYND/Hnefill

Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli var opnað almenningi um helgina, í fyrsta skipti í vetur. Að sögn Guðmundar Karls Jónssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins, var veðrið gott og skíðafærið frábært alla helgina. Ekki var nægur snjór á skíðasvæðunum í Bláfjöllum og Skálafelli til þess að hægt væri að opna þau.

„Þetta er óvenju snemmbúin helgaropnun hjá okkur, en snjórinn er frábær og færið gott. Lyfturnar eru opnar frá toppi og niður úr og göngubrautir troðnar,“ segir Guðmundur. „Fólk hefur tekið mjög vel í opnunina, stemningin er góð og nóg af fólki. Það á að halda áfram að snjóa í vikunni þannig að við erum vongóð.“

Friðjón Axfjörð Árnason, rekstrarstjóri skíðasvæðisins í Bláfjöllum og Skálafelli, segir sáralítinn snjó vera í hlíðum svæðisins og ekki tilefni til þess að opna. „Það snjóaði ekki jafn mikið hér og í höfuðborginni, og svo var líka of hvasst til þess að snjórinn héldist á jörðinni. Ef það heldur áfram að snjóa líður að því að við opnum, en við þurfum töluvert meira en þetta til þess að geta troðið og hulið jörðina. Í gær var ekki ástæða til þess að fara út á troðara, jörðin var bara svört og hvít.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×