Sport

Sol Campbell kominn í leitirnar

Campbell til hægri á góðri stundu á æfingu.
Campbell til hægri á góðri stundu á æfingu.

Sol Campbell, varnarmaður Arsenal er væntanlegur aftur á æfingu með liðinu á mánudaginn en ekkert hefur spurst til hans síðan hann yfirgaf heimavöll sinn í hálfleik þegar Arsenal tapaði fyrir West Ham í deildinni sl. miðvikudag.

Brotthvarf Campbell hefur komið af stað sögusögnum þess efnis að hann ætli að hætta fótboltaiðkun auk ýmissa samsæriskenninga sem hafa valdið ótta vegna enska landsliðsins sem keppir á HM í sumar. Campbell hefur verið að leika óvenju illa undanfarið og eitthvað virst hrjá leikmanninn.

Breskur almenningur er augljóslega að springa úr forvitni yfir því hvað raunverulega hafi komið upp á hjá Campbell sem hefur hingað til ekkert haft samband við Arsenal síðan hann strunsaði af leikvanginum um leið og honum var skipt út af í hálfleik í fyrrnefndum leik. Umboðsmaður Campbell staðfesti svo í dag að varnarmaðurinn myndi mæta á æfingu á mánudag en þvertók fyrir að þessi uppákoma stafaði af vandamálum í einkalífinu eins og sögusagnir eru uppi um.

Breska blaðið The Sun kveðst hafa heimildir frá leikmönnum hjá Arsenal að Campbell sem er 31 árs, eigi í miklum erfiðleikum í einkalífinu og komi það til af því að hann sé með þrjár konur í takinu sem hann geti ekki gert upp á milli. Ein þeirra ku vera hinn 44 ára gamla Karen Millen, tískuvöruframleiðandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×