Innlent

Ráðgjafar að drukkna í álagi

Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar
Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar

Sjö starfsmenn reyndu að svara 1.870 fyrirspurnum skjólstæðinga Tryggingastofnunar ríkisins síðastliðinn miðvikudag. Þeir, sem á annað borð ná í gegn, mega bíða í góðan klukkutíma til að fá viðtal og getur munað um minna fyrir farsímanotendur. Að auki heimsækja skrifstofuna allt að fimm hundruð viðskiptavinir á degi hverjum.

Skráð meginmarkmið Tryggingastofnunarinnar er að veita „áreiðanlega og skilvirka þjónustu“, eins og segir á heimsíðu hennar. Karl Steinar Guðnason, forstjóri stofnunarinnar, segir mikið álag hafa verið á þjónusturáðgjöfunum á þessu ári og ekki útséð með hvort TR nái að standast álagið sem fylgir árlegum endurreikningi bóta, á næstu vikum.

Aðspurður hvort fram hafi farið gæðamat eða úttekt á þjónustu TR, segir Karl Steinar enga þörf á því vegna þess að þegar álagið er mest sé fullljóst að þjónustan sé ekki viðunandi.

Karl Steinar viðurkennir að ástandið geti verið „óþolandi“ fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar og því hafi verið farið fram á aukna fjárveitingu; TR geti ekki veitt toppþjónustu við núverandi aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×