Innlent

Ræddu útrás Íslendinga og sóknarfæri

Ræddu íslensku útrásina. Tarja Halonen, forseti Finnlands, hitti íslenska athafnamenn og forseta Íslands í Helsinki. Á myndinni eru frá vinstri: Róbert Wessman, Hannes Smárason, Ólafur Ragnar Grímsson, Tarja Halonen, Björgólfur Thor Björgólfsson og Hreiðar Már Sigurðsson.
Ræddu íslensku útrásina. Tarja Halonen, forseti Finnlands, hitti íslenska athafnamenn og forseta Íslands í Helsinki. Á myndinni eru frá vinstri: Róbert Wessman, Hannes Smárason, Ólafur Ragnar Grímsson, Tarja Halonen, Björgólfur Thor Björgólfsson og Hreiðar Már Sigurðsson.

Forseti Finnlands, Tarja Halonen, bauð í gær fjórum íslenskum athafnamönnunum til fundar, þeim Björgólfi Thor Björgólfssyni kaupsýslumanni, Hreiðari Má Sigurðssyni, forstjóra KB-banka, Hannesi Smárasyni, forstjóra FL-Group, og Róbert Wessman, forstjóra Actavis.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, átti frumkvæði að fundinum sem haldinn var í finnsku forsetahöllinni í Helsinki. Fundinn sátu Hannes Heimisson, sendiherra Íslands í Finnlandi, Kaj Grandholm, sendiherra Finnlands á Íslandi, áhrifamenn úr finnsku athafnalífi, auk íslensku athafnamannanna. Halonen ræddi við Íslendingana um undirstöður útrásarinnar og velgengni á erlendum vettvangi, en þeir hafa allir fjárfest umtalsvert í Finnlandi. Sérstaklega sýndi Halonen áhuga á því hvernig mögulegt væri að styrkja samstarf íslenskra og finnskra fyrirtækja í sameiginlegri sókn á heimsmarkaði, einkum með tilliti til markaða í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.

Ólafur Ragnar afhenti Halonen eintak af nýútkominni finnsk-íslenskri orðabók eftir Tuomas Jarvela sem finnska háskóla­forlagið gaf út.


Tengdar fréttir

Skafmiðar og greiðslukort

Bílastæðasjóður vill taka upp greiðslukortaþjónustu í öllum greiðsluvélum og miðamælum, skipta út stöðumælum fyrir miðamæla, hefja sölu á viku- og mánaðarkortum og bjóða upp á fjölbreytt úrval skafmiða fyrir ákveðinn gildistíma á ákveðnu gjaldsvæði, með ótiltekinn upphafs­tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×