Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn sakaður um pólitískar njósnir

Sjálfstæðisflokkurinn var á Alþingi í dag sakaður um pólitískar njósnir. Formaður Vinstri-grænna segir að gróflega hafi verið brotin mannréttindi á friðarsinnum og vinstri mönnum af pólitískum andstæðingum þeirra og opinbert fé hafi verið misnotað í því skyni. Dómsmálaráðherra kynnti á föstudag fyrir ríkisstjórn og í dag fyrir formönnum þingflokka, tillögur um öryggislögreglu.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, var ómyrkur í máli um upplýsingar sagnfræðinganna Guðna TH Jóhannessonar og Þórs Whitehead um símhleranir og starfsemi öryggislögreglu á Íslandi.

Steingrímur vildi vita meðal annars af hverju dómsmálaráðuneytið hefði ekki sjálft haft forgöngu um að upplýsa málið og hvort þeir sem njósnað var um eða nánustu afkomendur þeirra myndu fá upplýsingar um það. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði að allar símhleranir hefðu verið gerðar lögum samkvæmt með úrskurði sakadómara eftir að lög um það tóku gildi 1951.

Björn sagði af og frá að hægt væri að kalla þessa starfsemi leyniþjónustu. Hann sagðist ennfremur hafa lagt fram tillögur að stofnun öryggislögreglu og greiningardeildar á ríkisstjórnarfundi á föstudag og kynnt þær tillögur fyrir formönnum þingflokka í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×