Innlent

Svindl í nafni UNICEF

Greint var frá því í fréttum RÚV í gær að dæmi væru um að einstaklingar svindluðu pening frá aðilum í íslenskri ferðaþjónsutu í nafni Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, eða annarra samtaka. UNICEF á Íslandi hefur sent frá sér frettatilkynningu til að koma eftirfarandi á framfæri:

 

Við vitum ekki hvort um sé að ræða peningasvindl í stórum stíl, en við höfum fengið fregnir af tveimur mismunandi tilvikum, eitt í byrjun janúar þar sem haft var samband við okkur og við náðum að stöðva og svo frá fréttum sjónvarps í gær. UNICEF Ísland lítur það mjög alvarlegum augum ef einhver reynir að nota það traust sem felst í nafni UNICEF og biðjum við um að haft verði samband við okkur ef grunur leikur á svindli.

 

Þess má geta að ef starfsmenn UNICEF heimsækja landið þá fer pöntun á gistingu í gegnum UNICEF hér á landi. Ekki undir neinum kringumstæðum eru sendar ávísanir í nafni UNICEF erlendis frá til að greiða fyrir gistingu og uppihald hér á landi. Ef grunur leikur á svindli getum við flett viðkomandi nafni upp í starfsmannaskrá UNICEF og haft samband við þá skrifstofu eða landsnefnd sem einstaklingurinn segist starfa hjá og þannig komið í veg fyrir allan vafa.

 

Því miður þekkist þessi aðferð á peningasvindli víða og vill UNICEF gera allt til að koma í veg fyrir að óprúttnir einstaklingar nýti sér nafn samtakanna í þessum tilgangi.

 

Vinsamlegast hafið samband við landsnefnd UNICEF á Íslandi í síma 552 6300 eða sendið tölvupóst á unicef@unicef.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×