Viðskipti innlent

Metafkoma hjá SPRON

Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis.
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis. Mynd/Pjetur
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) skilaði rúmum 2,6 milljarða króna hagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 67,1 prósents aukning á milli ára. Afkoma SPRON á sex mánaða tímabili hefur aldrei verið betri.

Hreinar rekstrartekjur bankans námu 5,1 milljarði króna sem er 51,4 prósenta aukning frá fyrra ári.

Heildarútlán og kröfur á lánastofnanir SPRON námu tæpum 120 milljörðum króna í júnílok og er það 31,5 prósenta hækkun á fyrstu sex mánuðum ársins, að því er fram kemur í tilkynningu frá SPRON til Kauphallar Íslands.

Þá námu útlán til viðskiptavina 113,362 milljörðum króna og hækkuðu þau um 33,4 prósent á tímabilinu.

Heildarinnlán námu alls rúmum 55,2 milljörðum króna og er það hækkun um 40,5 prósent frá áramótum.

Í tilkynningunni er haft eftir Guðmundi Haukssyni, sparisjóðsstjóra SPRON, afkoman hafi aldrei verið betri á einum árshelmingi. Náðst hafi góður árangur í rekstri allra rekstrareininga en jafnframt hafi fjárfestingar SPRON skilað góðri arðsemi.

Dótturfélög SPRON eru meðal annars Frjálsi fjárfestingarbankinn og Netbankinn. Segir Guðmundur bankana hafa gengið mjög vel og hafi fyrirtækin skapað sér trausta stöðu á sínum vettvangi.

Þá eru horfur SPRON mjög góðar á seinni helmingi ársins, að hans mati.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×