Sveini Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, finnst ekki góð hugmynd að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík. Sveinn segir í leiðara nýjasta fréttablaðs Samtaka iðnaðarins, að margir megi eiga von á því að verða kosnir út í hafsauga ætli menn að hafa þennan háttinn á. Hann segir vissulega koma til greina að almenningur fái að tjá sig um almennar leikreglur í atvinnurekstri, til dæmis á sviði umhverfismála, en að það sé hins vegar flótti frá almennri ábyrgð að henda umdeildum ákvörðunum um staðsetningu einstakra fyrirtækja í kosningu. Hann segir að kjósendur hafi engar forsendur til að taka efnislega afstöðu. Menn greiði atkvæði á þeirri forsendu, að öruggast sé að vera á móti því sem þeir þekki ekki. Sveinn segir að ef auka eigi íbúalýðræði í reynd, væri rétt að leyfa almenningi ap hafa skoðun og jafnvel áhrif á skipulagsmál almennt.
Framkvæmdastjóri SI leggst gegn atkvæðagreiðslu um álversstækkun
