Tveimur unglingspiltum, sem verið hafa í gæsluvarðhaldi á Ísafirði síðan á laugardag fyrir meinta fíkniefnasölu, hefur verið sleppt. Drengirnir tveir, sem eru 16 og 19 ára, voru handteknir í Ísafjarðardjúpi þar sem þeir voru á leiðinni til Ísafjarðarbæjar með 85 grömm af hassi í sölueiningum.
Þeir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar málsins. Piltarnir eru grunaðir um að hafa sótt efnið í Hrútafjörð að kvöldi föstudagsins 17. febrúar þangað sem efnin eru talin hafa verið flutt frá Reykjavík skömmu áður. Í tilkynningu frá lögreglunni á Ísafirði kemur fram að fleiri aðilar hafi verið yfirheyrðir í tengslum við rannsókn málsins, bæði á Ísafirði og í Reykjavík.