Viðskipti erlent

Easyjet tapaði 5,5 milljörðum króna

Mynd/AFP
Breska lággjaldaflugfélagið Easyjet tapaði 40,3 milljón pundum, jafnvirði rúmlega 5,5 milljarða íslenskra króna, fyrir skatta í mars á sex mánaða tímabili. Á sama tímabili í fyrra tapaði fyrirtækið 21,6 milljón pundum. Helsta ástæða tapsins er 49 prósenta hækkun á eldsneytisverði og páskahátíðin, sem var í apríl. Þrátt fyrir þetta er búist við að afkoma fyrirtækisins verði allt að 15 prósent meiri en á síðasta ári.

Að sögn forsvarsmanna Easyjet hefur fyrirtækið náð að draga úr kostnaði til að mæta hækkun á eldsneytisverði. Þá hefur sala félagsins á ýmsum varningi um borð í flugvélum fyrirtækisins aukist nokkuð.

Á ársfundi Easyjet í febrúar var spáð 45 milljóna tapi hjá fyrirtækinu.

Fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, hefur eftir Andy Harrison, forstjóra Easyjet, að búist sé við betri afkomu fyrirtækisins í sumar þrátt fyrir hækkun á eldsneytisverði.

14,1 milljón farþega flaug með Easyjet síðasta hálfa árið en það er 10,1 prósents fjölgun farþega frá sama tíma á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×